Við getum öll myndast vel - en hvernig?

Eiginlega öll sem koma til mín í faglega portrett myndatöku segja við mig að þeim finnist mjög óþægilegt að láta taka mynd af sér. Það veldur fólki stressi og kvíða og því finnst það ekki vita hvað það á að gera. Þetta er svo eðlilegt. Ég er búin að þróa mína nálgun að portrett myndatökum til að komast til móts við þessar eðlilegu tilfinningar fólks.

”Ég myndast svo illa”

Mörg eru sannfærð um að þau myndist bara illa, og eigi ekki séns. Ég skil þau svo vel, sjálfri þykir mér óþægilegt að láta taka mynd af mér. Allar myndir sem þú sérð af mér á samfélagsmiðlum eða heimasíðunni minni hef ég tekið sjálf, með fjarstýringu 🙂.

Við höfum mörg farið í myndatökur, fyrir starfsmannaskýrteini eða nemendafélagið. Það sem einkennir oft þannig tökur er að þær vara bara örfáar mínútur og oft er það ekki forgangsatriði þess sem tekur myndirnar að þú lítir sem best út, heldur að komast yfir að taka myndir af sem flestum í einu. Það er því mjög líklegt að við eigum ekki frábæra upplifun af myndatökum - og höfum ekki verið ánægð með myndina af okkur. En það eru ekki við sem myndumst illa - heldur voru aðstæðurnar ekki hannaðar til þess að myndin af okkur yrði góð.

Við getum öll myndast vel - en hvernig?

En hvernig? Það eru nokkur atriði sem mér þykir skipta máli:

1. Rólegt og afslappað andrúmsloft

Lykillinn að því að minnka streituna í myndatöku er að andrúmsloftið sé rólegt og afslappað. Ég vil kynnast manneskjunni sem ég er að mynda aðeins og vita hvað hún ert að fást við og hvað hún vill fá út úr myndatökunni. Stúdiðið er líka notalegt og þægileg tónlist á fóninum.

2. Gefum okkur tíma

Lykillinn að því að minnka streituna í myndatöku er að vita að við séum í góðum tíma og ekki sé verið að reka á eftir manni. Ég trúi á að ef við höfum nægan tíma til að prófa okkur áfram, þá líður okkur betur. Við lærum á skrítnu aðstæðurnar sem við erum komin í og slökum aðein á því við vitum að það verður tekið nóg af myndum til að velja úr.

3. Skýrar leiðbeiningar

Það er mikilvægt að fá skýrar leiðbeiningar bæði fyrir myndatökuna varðandi undirbúning, og í myndatökunni sjálfri. Fyrir tökuna fær fólk sem kemur til mín undirbúningspóst með leiðbeiningum um hvernig er best að klæða sig og hafa sig til. Í myndatökunni leiðbeini ég svo með bæði klæðnað sem komið var með og svo hvernig er best að standa og bera sig fyrir framan myndavélina.

Ég nýti svo líka spjall og húmor til að fólk slaki aðeins betur á og þannig að svipbrigði séu náttúruleg á myndunum.

4. Ítrun og samvinna

Við tökum myndir í nokkrum lotum. Byrjum á að hita upp, ég leiðbeini og fólk nær úr sér kjánahrollinum. Síðan býð ég fólki að skoða og spyr hvað það sér; svipir, uppstilling sem þeim líst best á til að halda áfram með. Síðan athugum við með smáatriðin, hár út í loft, krumpur í skyrtum eða annað og leiðréttum. Þetta gerum við nokkrum sinnum og það hjálpar fólki að slaka á, gefur fólki öryggi að finna og sjá að myndirnar verða betri með hverri ítrun.

Kría Súsanna fagleg portrett mynd. Kona í skyrtu og blazer jakka með glampa í augum og létt bros.

Með samtalinu og samvinnunni skapast ákveðin tenging milli okkar, sem sést svo skýrt í myndunum. Þessi tenging er svo lykillinn að því að aðrir tengi við myndina í hvaða tilgangi sem hún er svo notuð.

Við getum öll myndast vel, við þurfum bara réttu aðstæðurnar og leiðbeiningarnar til að það takist.

Next
Next

Af hverju nýbura- og ungbarnamyndataka í stúdíói?